Háskóladagurinn er í dag en þá kynna háskólar landsins námsframboð sitt fyrir næsta skólaár.

Kynningin fer fram á tveimur stöðum í borginni. Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands verða í Háskólatorgi Háskólans og í Ráðhúsi Reykjavíkur verða Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands. Þá verður á sama tíma boðið upp á kynningu á framhaldsnámi í Danmörku í Norræna húsinu.

Persónuleg ráðgjöf

Nemendur háskólanna, kennarar og námsráðgjafar taka á móti gestum og miðla af reynslu sinni. Einnig verður kynnt margskonar þjónustustarfsemi við nemendur.

Í sameiginlegri tilkynningu frá HÍ og HR kemur fram að búast má við því að yfir 3.000 gestir sæki námskynningu háskólanna þennan dag því fjölmargir óska eftir að fá þá persónulegu ráðgjöf sem þarna býðst. Í kynningurm skólanna eru kynntar yfir 500 mismunandi námsleiðir.