Árið 2015 voru fleiri landsmenn á aldrinum 25-64 ára með háskólamenntun heldur en eingöngu framhaldsskólamenntun.

Voru háskólamenntaðir á þessu aldursbili 64.600 manns eða 38,9% íbúa landsins en 59.600 eða 35,9% höfðu einungis lokið framhaldsskólastigi. Loks hafa 25,2% eingöngu lokið grunnmenntun, eða 41.900 manns.

Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar , en þar er bent á að þetta hafi gerst í fyrsta skipti árið 2014, en þá hafi munurinn hins vegar verið innan skekkjumarka.

Má rekja fjölgun háskólamenntaðra til fjölgunar háskólamenntaðra kvenna og fækkun þeirra sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun, en á árunum 2003 til 2015 hafa orðið minni breytingar á menntun karla.