Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur brautskráðum Íslendingum úr háskólanámi, bæði hér heima og erlendis, fjölgað um 160% frá 1995 til 2012. Á þeim tíma hefur útskrifuðum háskólanemum yfirleitt fjölgað jafnt og þétt á milli ára fyrir utan árabilið 2008-2009 en þeim fjölgaði strax aftur á árunum þar á eftir.

En er aukin háskólamenntun að skila sér í auknum tekjum allra þeirra sem útskrifast? Samkvæmt nýlegri skýrslu Hagstofunnar um samspil tekna og menntunar kemur fram að bil atvinnutekna einstaklinga með grunnmenntun og háskólamenntun hefur farið minnkandi upp á síðkastið. Árið 2013 voru þeir sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun á Íslandi með 86,3% af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra. Þetta er hærra hlutfall en í nokkru öðru Evrópulandi. Til samanburðar var hlutfallið 80,3% í Svíþjóð, 77% í Noregi og 73% í Hollandi. Mestur munur á ráðstöfunartekjum milli menntunarhópa var í Rúmeníu en grunnmenntaðir Rúmenar þéna að jafnaði um 33% af tekjum háskólamenntaðra.

Stóra myndin virðist vera sú að fyrir bankahrunið 2008 hafi bilið á milli tekna ólíkra menntunarhópa verið nokkuð breitt en minnkað jafnt og þétt til dagsins í dag. Það þýðir að fólk með háskólamenntun hefur síður náð sér á strik eftir hrunið en aðrir menntunarhópar. Þetta sést einnig þegar litið er til talna yfir atvinnuleysi eftir menntunarstigi. Árið 2008 var 4,1% atvinnuleysi á meðal þeirra sem aðeins hafa grunnmenntun og 1,6% á meðal háskólamenntaðra. Árið eftir verður 10,8% atvinnuleysi á meðal grunnmenntaðra og 4% hjá háskólamenntuðum. Síðan þá hefur dregið nokkuð úr atvinnuleysi grunnmenntaðra en háskólamenntaðir hafa átt nokkuð erfiðara um vik. Á síðasta ári var 7% atvinnuleysi á meðal grunnmenntaðra og 3,7% á meðal háskólamenntaðra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .