Samkvæmt nýlegri skýrslu Hagstofunnar um samspil tekna og menntunar kemur fram að bil atvinnutekna einstaklinga með grunnmenntun og háskólamenntun hefur farið minnkandi upp á síðkastið. Árið 2013 voru þeir sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun á Íslandi með 86,3% af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra. Þetta er hærra hlutfall en í nokkru öðru Evrópulandi. Til samanburðar var hlutfallið 80,3% í Svíþjóð, 77% í Noregi og 73% í Hollandi.

„Þegar maður horfir á þessar tölur frá Hagstofunni þá eru í þeim gríðarlega stórir og fjölbreyttir hópar og það er erfitt að bera þá beint saman,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. „Það er kannski tvennt sem þarf að hafa í huga. Annars vegar það að háskólamenntun er mjög fjölbreytt og það er alls ekki þannig að öll háskólamenntun veitir sama aðgengi að þeim störfum sem oft er vísað til sem vel launaðra háskólastarfa. Hitt er að á Íslandi er til töluvert af störfum sem eru mjög vel launuð en krefjast ekki háskólamenntunar. Þar má nefna sem dæmi störf í sjávarútvegi og í stóriðju. Það sem þarf auðvitað að gera er að greina þetta betur inn á hópana þannig að innan háskólamenntunar séu skoðaðir ólíkir hópar. Sömuleiðis þegar kemur að þeim sem eru ekki með háskólamenntun. Ég er viss um að þar er mikil dreifing á bak við þetta meðaltal. Ég hvet til þess að þetta verði greint betur.“

Bókvitið og askarnir

Að mati Jóns Atla Benediktssonar, nýkjörins rektors Háskóla Íslands, draga tölur Hagstofunnar um lítið bil á milli tekna grunnmenntaðra og háskólamenntaðra ekki úr vægi háskólamenntunar í heild sinni. Hún mætti engu að síður vera betur metin af atvinnurekendum að hans mati. „Þegar fólk leitar sér menntunar þá getur fólk átt kost á fjölbreyttari störfum að lokum,“ segir Jón Atli. „Það er launalaust í langan tíma og því er mikilvægt að gildi menntunar sé viðurkennt í launum. Það er greinilegt að mínu mati að Íslendingar þurfa að gera betur. Gildi háskólamenntunar er mikið í nútímasamfélagi að mínu mati og við sjáum að fólk er að sækja sér háskólamenntun í auknum mæli. Í gæðaúttektum kemur fram að menntunin er góð, við erum að fá ítrekaðar gæðaúttektir hvað það varðar og Háskóli Íslands er að ná mjög góðum árangri í alþjóðlegum mælingum. Það er meiri og meiri krafa um menntun en það er ljóst að fólk fær ekki eins há laun og það ætti að fá. Það er hins vegar erfitt fyrir mig að mæla hver ástæðan fyrir þessu er. Engu að síður tel ég að þetta gamla viðhorf, um að bókvitið verði ekki í askana látið, tilheyri gamla tímanum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .