Hópur háskólanema hefur stofnað Samtök frjálslyndra háskólanema, en greint er frá þessu í fréttatilkynningu. Sáu félagsmenn ástæðu til að stofna samtökin vegna ,,rísandi sósíalískra afla í samfélaginu."

Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér að neðan:

Samtök frjálslyndra háskólanema voru á föstudag stofnuð á Kringlukránni.

Samtök frjálslyndra háskólanema eru stofnuð til að breiða út hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Háskólanemendur sem styðja hugmyndafræði frjálshyggju er ört vaxandi hópur.

Stefna félagsins er að mennta, styrkja og fræða frelsisþenkjandi einstaklinga, meðal annars með greinaskrifum, fyrirlestrum og málfundum. Samtök frjálslyndra háskólanema stefna að því að boða út frelsisstefnuna út frá þremur grundvallaratriðum; efnahagslegu frelsi, akademísku frelsi og frelsi einstaklingsins.

Vegna rísandi sósíalískra afla í samfélaginu sjáum við ríka ástæðu fyrir því að stofna samtökin.

Á tímum sem þessum er mikilvægt að þeir sem trúa á framtak einstaklingsins, til athafna, komi saman, ræði ólíkar hugmyndir og ekki síst lausnir við þeim vandamálum sem samfélagið kann að standa frammi fyrir á hverjum tíma. Ríkisvaldið er ekki best tilfallið, til að leysa öll vandamál samfélagsins.