Nemendur viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og hönnunarnemendur frá Listaháskóla Íslands kynna fjárfestum nýjar og ferskar viðskiptahugmyndir sínar á morgun,  föstudaginn 26. október, í Norræna húsinu.

Þrettán nemendahópar hafa á undanförnum fimm vikum þróað viðskiptaáætlanir sem byggja á þemanu „ Næsta skref íslensku útrásarinnar“ . Útkoman er 13 nýjar viðskiptaáætlanir sem allar eiga það sameiginlegt að ætla sér að skapa tekjur erlendis.

Samstarfsverkefni þessara tveggja háskóla er einstakt að því leyti að hér er um nýsköpun að ræða sem fáum erlendum háskólum hefur tekist að finna hliðstæðu við. Tvær háskólastofnanir hafa á praktískan hátt stuðlað að nýsköpunarvirkni nemanda sinna og reynt að efla með þeim frumkvöðlaanda. Þetta er áhugavert í því ljósi að nýsköpunarvirkni er talin vera sá þáttur sem stuðli hvað mest að samkeppnishæfni þjóða og fyrirtækja.

Að kynningum loknum, um kl. 19:00, veitir  Andri Ottesen, framkvæmdarstjóri Klaks Nýsköpunarmiðstöðvar, dótturfyrirtækis Nýherja og Háskólans í Reykjavík, verðlaun fyrir bestu kynninguna.