Ferill Ara Kristins Jónssonar er í senn glæsilegur og um margt ólíkur því sem Íslendingar eiga að venjast. Hann lauk doktorsnámi frá Stanford háskóla árið 1997 og hóf í framhaldinu störf hjá NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna. Hann starfar í dag sem rektor Háskólans í Reykjavík. Í ítarlegu viðstali við Viðskiptablaðið fjallar hann m.a. um þær áskoranir sem blasa við íslenskum háskólum.

Háskólar á Íslandi alvarlega undirfjármagnaðir

Hvað er það helsta sem er fram undan hjá skólanum um þessar mundir?

„Það eru nokkrir hlutir í pípunum. Ef við horfum inn á við fyrst þá erum við komin af stað með það verkefni að byggja upp háskólagarða hjá okkur til að bjóða nemendum upp á húsnæði hérna á svæðinu sem er eins hagstætt og hægt er að bjóða upp á. Þá erum við einnig að vinna að því að koma upp nýsköpunaraðstöðu fyrir nemendur og fyrirtæki sem stofnuð eru innan HR

Ef við horfum hins vegar út á við þá er stóra viðfangsefnið sem er fram undan að efla fjármögnun háskólanna. Háskólar á Íslandi eru mjög alvarlega undirfjármagnaðir í samanburði t.d. við norræna háskóla. Með hverjum nemanda hér á Íslandi fylgir ekki nema um það bil helmingur þess fjármagns sem norrænir háskólar fá. Norrænar þjóðir hafa stóraukið fjárfestingu í háskólamenntun á síðustu árum á meðan framlög á hvern nemanda á Íslandi hafa lítið breyst. Þetta er stórmál því menntun og geta okkar mannauðs verður það sem mun skipta sköpum í samkeppni við aðrar þjóðir næstu áratugina. Það hvernig við til dæmis nýtum okkar náttúruauðlindir, hvernig við getum keppt alþjóðlega og skapað nýjar vörur byggir alfarið á því að við séum með með öflugt og menntað fólk á landinu og til þess þurfum við að vera með góða háskóla.

Okkur hefur tekist merkilega vel til og við megum vera mjög stolt yfir því hverju háskólasamfélagið á Íslandi hefur áorkað. Þannig er ég bæði mjög stoltur yfir því hvað háskólasamfélagið í heild hefur gert og þá sér í lagi hvað HR hefur gert. En til þess að við getum staðið okkur í samkeppni til lengri tíma þá verðum við líka að vera samkeppnisfær við menntun erlendis og til þess þarf að bæta fjármögnun háskóla á Íslandi verulega. Þetta er á dagskrá og hefur verð sett í stefnu Vísinda- og tækniráðs og nú er bara að fylgja því eftir og tryggja að stjórnvöld geri það sem þarf til að íslenskir háskólar hafi það fjármagn sem þeir þurfa til að efla samkeppnishæfni íslensks samfélags til framtíðar.“

Viðtalið við Ara má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.