Staða eignasafns Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands hefur rýrnað um ríflega 900 milljónir króna síðan í september síðastliðnum. Í sjóðnum eru nú ríflega 2,2 milljarðar króna sem er nokkurn veginn sama upphæð og var þegar hann fór undir eignastýringu Landsbankans.

Í tilkynningu frá fráfarandi stjórn kemur fram að eignasafnið hefur sveiflast á nýliðnum árum í samræmi við aðstæður á mörkuðum. Eignastaða sjóðsins þann 31. desember hljóðaði upp á 2.218.377.450 kr.

Í tilkynningunni kemur fram að stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands er samkvæmt stofnskrá formaður og varaformaður bankaráðs Landsbanka Íslands og bankastjóri sama banka. Vegna breytinga á eignarhaldi og yfirstjórn bankans í október á síðasta ári hafa undirritaðir nú látið af störfum sem stjórnarmenn í sjóðnum. Á starfstíma stjórnarinnar hafa verðmæti eigna sjóðsins vaxið úr um 1,2 milljörðum króna í rúma 2,2 milljarða króna. Á sama tíma hefur sjóðurinn greitt rannsóknarstyrki að fjárhæð 143 milljónir króna og styrkt byggingu Háskólatorgs fyrir að fjárhæð 500 milljónir króna eða samtals um 645 milljónir króna.

Í stjórninni sátu Björgólfur Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson og Halldór J. Kristjánsson.