Samningaviðræður hefjast á mánudag við hönnunarteymið SPITAL um hönnun nýs Háskólasjúkrahúss samkvæmt verðlaunatillögu hópsins sem kynnt var í gær. Að sögn Gunnars Svavarssonar, formanns verkefnisstjórnar um byggingu nýs Landspítala, er stefnt að því að samningur liggi fyrir 5. ágúst á milli hönnuðateymisins og óstofnaðs Háskólasjúkrahúss ohf.

„Þegar samningagerð lýkur hafa þeir 9 til 12 mánuði til að hanna bygginguna. Verklegt útboð á því að geta farið fram vorið 2011 og skóflurnar byrjað að moka sumarið 2011. Það er gert ráð fyrir að allt verði tilbúið á árinu 2017, þar með talin endurbygging á eldra húsnæði. Nýbyggingarhlutinn á þó að verða tilbúin á um fjórum árum, eða á bilinu 2015 til 2016,” segir Gunnar.