Ríkiskaup fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins og Háskóla Íslands hafa auglýst eftir alverktaka til að taka þátt í samkeppni um hönnun og byggingu Háskólatorgs. Verkið felur í sér hönnun og byggingu tveggja nýbygginga á lóð Háskóla Íslands við Suðurgötu í Reykjavík. Önnur byggingin, Háskólatorg I, er um 5.000 fermetrar og er staðsett milli aðalbyggingar Háskóla Íslands og íþróttahúss. Tengingar verða við Lögberg og Íþróttahús.

Í byggingunni skulu vera m.a. kennslustofur, lesrými, skrifstofur fyrir þjónustustofnanir HÍ, Happadrætti Háskóla Íslands, bóksala stúdenta, skrifstofa FS og stúdentaráðs auk veitingaaðstöðu. Hin byggingin, Háskólatorg II, er um 3.000 m² og er staðsett milli Odda, Lögbergs og Nýja Garðs. Tengingar verða við Odda og Lögberg. Í þeirri byggingu skulu vera skrifstofur fyrir starfsmenn og nemendur, lesrými fyrir meistaraprófsnema, doktorsnema og grunnnema auk rannsóknarstofa. Áætluð stærð tengibygginga er um 500 m². Eitt helsta markmið nýju bygginganna er að þétta svæði Háskólans, tengja byggingar og mynda þannig heildstæðara Háskólatorg og mynda miðju háskólasvæðisins sem byggir á hugmyndinni um háskóla sem samfélag í kringum torg.

Til alútboðs verða valdir allt að fimm alverktakar sem keppa um hönnun Háskólatorgs og fá afhent útboðsgögn að forvali loknu.Sá alverktaki sem verður hlutskarpastur í keppninni um hönnun mun, auk þess að fullhanna húsið, byggja það. Frestur til að skila inn þátttökutilkynningum rennur út 14. apríl næstkomandi segir í frétt á vef Ríkiskaupa.