*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 12. mars 2018 14:25

„Háskóli er stórt orð“

Dósent við HÍ kallar framkvæmdastjóra SA atvinnumann í hagsmunagæslu eftir ábendingu um órökstuddar staðhæfingar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur átt í ritdeilum á síðum Morgunblaðsins við Gylfa Dalmann Aðalsteinsson dósent við HÍ undanfarna daga.

Rætt var við Gylfa Dalmann í blaðinu á föstudag þar sem hann hélt því fram að ákveðnir hópar launafólks hafi setið eftir með mjög lág laun í samanburði við aðra hópa í samfélaginu. 

Þetta sé skýringin á umbrotum í verkalýðshreyfingunni líkt og sigri Sólveigar Önnu Jónsdóttur í formannsslagnum í Eflingu og kjöri Ragnars Þórs Ingólfssonar sem formanns VR.

„Þessir hópar hafa setið eftir og bilið breikkar á milli lægstu hópanna og annarra hópa,“ segir Gylfi Dalmann sem vill þjóðarsátt um að lyfta lægstu launum, en jafnframt segir hann það skipta máli að ASÍ klofni ekki vegna þessara umbrota.

„Sundurlyndi eða ósamstiga verkalýðshreyfing er bara vatn á myllu vinnuveitenda.“

Segir staðhæfingar dósentsins þvert á mælanlegar staðreyndir

Halldór Benjamín segir í grein sem hann birti í blaðinu á laugardag undir yfirskriftinni Dósent gengisfellir Háskóla Íslands að Gylfi Dalmann fari með órökstuddar staðhæfingar sem gangi þvert á mælanlegar staðreyndir.

„Lágmarkslaun voru 125 þús. kr. á mánuði árið 2007 og verða 300 þús. kr. hinn 1. maí 2018. Kaupmáttur lágmarkslauna jókst um rúmlega 40% á tímabilinu. Til samanburðar jókst kaupmáttur launafólks almennt um 20% skv. launavísitölu,“ segir Halldór Benjamín í grein sinni og bendir á að sérstök áhersla hafi verið lögð á hækkanir lægst launuðu hópana eftir hrun.

„Á árunum 2006 til 2015 hækkuðu lægstu launataxtar meira en hærri launataxtar á hverju einasta ári, að árinu 2007 undanskildu. Laun hækkuðu sem sagt sérstaklega í níu ár af þessum tíu.“

Bendir Halldór Benjamín á að miklar launahækkanir á Íslandi og styrking krónunnar hafi leitt til þess að lágmarkslaun hér á landi séu meðal þeirra hæstu í heimi. 

„Hin gildishlaðna ályktun um að sundurlaus verkalýðshreyfing sé „vatn á myllu vinnuveitenda“ er einnig alröng og öfugsnúin,“ segir Halldór Benjamín sem segir það einmitt vera kjarna norræna kjarasamningamótelsins að verkalýðshreyfingin sé samhent og með skýr markmið, sem sé þjóðfélaginu öllu til hagsbóta. 

„Það er kjarni norræna kjarasamningalíkansins. Íslenska kjarasamningalíkanið einkennist hins vegar af sundurlyndi verkalýðsfélaga í innbyrðis baráttu um launahlutföll með verkfallsvopnið á lofti.

Háskóli er stórt orð. Samtök atvinnulífsins skora á dósentinn að gera grein fyrir þeim rannsóknum sem hann byggir þennan maka- og rakalausa málflutning sinn á.“

Segir hækkun lægstu launa litlu máli skipta ef óánægja

Í dag byrtir svo Gylfi Dalmann svargrein á síðum blaðsins þar sem hann kallar Halldór Benjamín atvinnumann í hagsmunagæslu á sama tíma og hann viðurkennir að staðreyndirnar sem hann tefli fram séu réttar.

Hins vegar skipti það litlu máli hvort laun hafi hækkað mikið eða lítið samanborið við aðra sem vísar í að 43% Eflingarfólks sé ósátt við laun sín.

„Mat launþeganna sjálfra á eigin heildarkjörum, bæði þeim sem birtast í launaumslaginu og í aðgangi að húsnæðismarkaði, almannagæðum og millifærslukerfi eins og t.a.m. barna- og vaxtabótum – í samanburði við aðra – er það sem ræður afstöðu þeirra til eigin launakjara,“ segir Gylfi Dalmann sem segir að öfugt við Halldór Benjamín starfi Háskólakennarar líkt og hann sjálfur ekki við sérhagsmunagæslu.

„Mig grunar að í því samhengi sem hér um ræðir sé meginmálið ekki það hvort lægstu laun hafi hækkað meira en önnur laun, heldur að innan samtaka atvinnurekenda ríki bæði kvíði og áhyggjur af því að nýskeðir atburðir innan verkalýðshreyfingar leiði til harðnandi átaka á vinnumarkaði á næstunni.“