Nýr listi yfir bestu háskóla heims hefur verið birtur en Times Higher Education World University Rankings tekur listan saman.

Háskóli Íslands er i sæti 251-275 á listanum í ár en um 17.000 háskólar eru í heiminum og er Háskóli Íslands því meðal efstu tveggja prósenta háskóla á heimsvísu.

Times Higher Education hefur tekið saman lista yfir 400 bestu háskóla heims í um áratug. Háskóli Íslands komst fyrst á listann á aldarafmæli skólans og hefur verið í kringum 270. sæti síðan þá, eftir því sem fram kemur á frétt sem birt var á vef skólans.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands segir í fréttinni að  það skipti „miklu máli að með þessari viðurkenningu á starfi Háskóla Íslands fá prófgráður frá skólanum aukið vægi og með því opnast fleiri dyr fyrir stúdenta okkar að námi í fremstu háskólum heims“.