Vísindagarðar Háskóla Íslands keyptu þann 1. júlí síðastliðinn húsnæðið þar sem starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar er i Vatnsmýrinni. Húsnæðið er að Sturlugötu 8.  Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða, vill ekki gefa upp kaupverðið í samtali við Viðskiptablaðið. „Nei, það er trúnaðarmál,“ segir Eiríkur Hilmarsson. Seljandinn er félagið S8, sem DV sagði, árið 2010, að væri skráð á Tortóla. Samkvæmt Fasteignaskrá er fasteignamat á húsinu tæpir 4 milljarðar króna.

Eiríkur segir að þegar húsið var byggt og lóðinni verið úthlutað til Háskóla íslands fyrir byggingu þá hafi verið samkomulag milli Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Íslenskrar erfðagreiningar um að Háskólinn ætti forkaupsrétt að húsinu.

Húsið hafi í fáein skipti skipt um eigendur en í þetta sinn hafi HÍ ákveðið að nýta forkaupsréttinn. Eiríkur segir að Íslensk erfðagreining muni leigja húsnæðið áfram en langtímaleigusamningur var í gildi milli S8 og Íslenskrar erfðagreiningar.

Eiríkur segir að HÍ hafi ýmsan ávinning af kaupum á húsnæðinu. „Þetta er eitt besta rannsóknarhús landsins, er á háskólalóðinni og með uppbyggingu Vísindagarða er verið að draga til sín þekkingafyrirtæki með það að leiðarljósi að þarna verði þekkingasamfélag fyrirtækja og háskólans,“ segir Eiríkur. Með tíð og tíma koma vísindagarðar til þess að eiga þarna húsnæði og geta ráðstafað því til íslenskra fyrirtækja og vonandi Íslenskrar erfðagreiningar til langs tíma.

Ákveðið var á fundi borgarráðs í dag að Reykjavíkurborg myndi úthluta HÍ lóð í Vatnsmýrinni sem hýsa mun lyfjafyrirtækið Alvogen. Borgarráð mun senda tilkynningu vegna þessa í dag.