Rafræn kosning til rektors Háskóla Íslands fer fram í dag. Opnað var fyrir kosninguna klukkan 9 og stendur hún til klukkan 18. Í framboði til rektors eru Einar Steingrímsson, prófessor við Strathclyde háskóla í Glasgow í Skotlandi, Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Jón Atli Benediktsson, prófessor og aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands.

Guðrún hefur lýst því yfir að stærsta verkefni næstu ára verði að tryggja fjármögnun skólans, auk þess sem hún vill beita sér fyrir hærri framfærslu LÍN, námsaðstöðu og nútímalegri kennsluháttum. Jón Atli hefur sagst vilja efla rannsóknir og kennslustarf, kjör og aðbúnað starfsfólks og nemenda auk þess að leggja stúdentum lið í hagsmunabaráttu. Einar hefur lýst yfir vilja til að efla rannsóknarstarf háskólans og nútímavæða kennsluhætti með því að gera námsefni aðgengilegt á netinu.

Á kjörskrá eru 1.485 starfsmenn og 12.625 stúdentar við háskólann, en vægi atkvæða er þannig að atkvæði starfsmanna gilda 70% á móti 30% vægi atkvæða stúdenta. Kosningin fer fram á Uglu, innri vef háskólans. Í tilkynningu frá háskólanum kemur fram að tölvuver á Háskólatorgi verði frátekið sérstaklega á kjördag og að þar verði starfsmaður frá Reiknistofnun háskólans til staðar ef tæknileg vandamál koma upp.