Háskólinn í Reykjavík flytur í nýja byggingu í Nauthólsvík á morgun. Nemendur og kennarar skólans ætla að safnast saman við aðalbyggingu skólans í Ofanleiti 2, kl. 9:15 og ganga fylktu liði niður Kringlumýrarbraut, yfir göngubrúna og áfram neðan við kirkjugarðinn í Fossvogi og þaðan að nýrri byggingu HR í Nauthólsvík.

Þar bíður göngufólksins heitt kakó og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, Svafa Grönfeldt, rektor HR, Ari Kristinn Jónsson, verðandi rektor HR og Sunna Magnúsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, flytja stutt ávörp. Gestum verður boðið að ganga um bygginguna og skoða hana, en allir nemendur og starfsmenn fá afhent kort af byggingunni þegar þeir koma í hús. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá kl. 11:10.

Árið 2006 var ákveðið að ráðast í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík og var skólanum fundinn staður í Nauthólsvík, við rætur Öskjuhlíðar. Borgarstjórinn í Reykjavík tók fyrstu skóflustunguna árið 2007 og framkvæmdir hófust í byrjun árs 2008. Í tilkynningu kemur fram að mikið hagræði næst við að skólinn verði allur sameinaður á einum stað, en á undanförnum árum hefur starfsemi hans farið fram á fjórum stöðum í borginni; í Ofanleiti 2, í Kringlunni 1 (gamla Morgunblaðshúsinu), í Kringlunni 7 (Húsi verslunarinnar) og Höfðabakka 9.

Þrjár deildir HR af fimm flytja í nýbygginguna núna, tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptadeild. Lagadeild og kennslufræði- og lýðheilsudeild flytja svo í sumar og þá verður starfsemi HR öll undir einu þaki. Um 2.300 nemendur og 200 kennarar flytja núna í Nauthólsvík, en alls eru um 3.000 nemendur skráðir í nám við HR. Nýja byggingin opnar hins vegar möguleika á frekari vöxt við skólann á næstu árum segir í tilkynningu.

Mun minna en upphaflega var gert ráð fyrir

Upphaflega var gert ráð fyrir að byggingin yrði 37.000 fermetrar. Í ljósi breytinga á efnahagsástandi Íslands hefur byggingu 2ja smærri álma verið frestað um óákveðinn tíma. Sá hluti sem nú verður tekinn í notkun er um 23.000 fermetrar og síðar á þessu ári verður 7.000 fermetra álma tekin í notkun og telst skólinn þá fullbyggður miðað við núverandi stöðu og áætlanir.

Í tilkynningu segir að í nýbyggingu HR í Nauthólsvík verði sköpuð alveg ný aðstaða fyrir nemendur. Aðstaða til náms og rannsókna verður eins og best gerist í nágrannalöndum okkar. Sérstaklega var lögð áhersla á góð samskipti nemenda og kennara og þverfaglegan skóla þar sem nemendur hittast í opnu samfélagi án deildarmúra. Nýsköpun, fjölbreytni og betri samskipti og vinnuaðstaða verða leiðarljósið. Mikil áhersla er lögð á nútíma tæknibúnað í vel hönnuðum kennslustofum, en á sama tíma ekki lagt mikið upp úr dýrum og kostnaðarsömum innréttingum. Innihaldið skiptir mestu máli, en umgjörðin þarf auðvitað að vera í lagi.