Rektor, háskólaráð og Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík (HR) fagna umræðum um aukna samvinnu háskólanna.

Hins vegar er sameining tveggja stærstu og jafnframt hagkvæmustu háskólaeininga landsins ekki ákjósanleg ef standa á vörð um fjölbreytni og framþróun háskólamenntunar, nýsköpunar- og vísindastarfs hér á landi til framtíðar.

Þetta kemur fram í ályktun rektors, háskólaráðs og Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík sem send var fjölmiðlum í dag.

Þar segir að HR hafi sérstöðu sem háskóli atvinnulífsins. HR sé stærsti tækniháskóli landsins og útskrifi  árlega um 2/3 af öllu tæknimenntuðu háskólafólki hér á landi. Jafnframt útskrifist nú fleiri viðskiptafræðingar frá HR en öðrum innlendum háskólum.   „Akademískur styrkur HR hefur vaxið hratt,“ segir í ályktuninni.

„Skólinn hefur á að skipa hæsta hlutfalli doktorsmenntaðra kennara á sviði viðskipta- og lögfræði hér á landi. Fræðimenn HR birta einnig hlutfallslega flestar greinar í alþjóðlegum ritrýndum fræðitímaritum á sviði tækni, viðskipta og laga hérlendis auk þess sem að birtingatíðni í lýðheilsufræðum er með því hæsta gerist í HR. Alls eru birtingar fræðimanna HR á ritrýndum vettvangi nú yfir 400 á ári og hafa þær tvöfaldast síðan árið 2005.“   Þá kemur jafnframt fram að ný aðstaða Háskólans í Reykjavík í næsta nágrenni við Háskóla Íslands skapi tækifæri til að auka flæði fólks og þekkingar á milli háskólanna og stuðli að fjölbreyttu og lifandi þekkingarsamfélagi í Vatnsmýri.

„Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands eru tveir stærstu háskólar landsins. Á þeim hvílir mikil ábyrgð gagnvart nemendum, starfsfólki og samfélaginu í heild,“ segir í ályktuninni.

„Nemendur og starfsfólk háskólanna eru hvött til að standa saman og styðja hvert annað í þeim krefjandi verkefnum sem háskólarnir og þjóðin öll stendur frammi fyrir. Ísland þarf sterka sjálfstæða háskóla og víðsýnt og kraftmikið háskólafólk fyrir það uppbyggingarstarf sem framundan er á komandi árum svo Íslendingar skipi sér áfram á bekk samkeppnishæfustu þjóða heims og njóti lífsgæða eins og best þekkjast.“