Fyrirtækið Rafnar ehf. í Vesturvör í Kópavogi hefur þróað nýja og byltingarkennda gerð bátskrokks sem nefnist ÖK Hull og byggir á hugmynd stofnanda fyrirtækisins, Össurar Kristinssonar. Fyrstu bátarnir sem eru smíðaðir á þessum nýja skrokki eru í þremur lengdum. ÖK skrokkurinn er byggður á sérstakri hönnun sem gerir hann að rúmmálsskrokk en nýtni og hámarkshraði hans er eins og um planandi skrokk sé að ræða. Fyrirtækið er nú að hasla sér völl með útfærslu á bátunum fyrir alþjóðlegan markað, í fyrstu inn á markað fyrir léttabáta fyrir lystisnekkjur.

Rafnar ehf. er í húsnæði sem var sérstaklega innréttað fyrir bátasmíðina í Vesturvör á Kársnesinu í Kópavogi. Þar eru notuð bestu framleiðslutæki sem í boði eru fyrir smíði báta úr trefjaplasti. Þróaðar hafa verið þrjár gerðir báta með þessu byltingarkennda skrokklagi sem eru af mismunandi lengd. Rafnar ehf. hefur fengið einkaleyfi fyrir „ÖK Hull“ skrokkhönnuninni í Bandaríkjunum og Evrópu en jafnframt er skráning einkaleyfis í undirbúningi í öðrum löndum utan þessara svæða.

Kostirnir styðja við hærra söluverð

Páll Einarsson yfirhönnuður hjá Rafnar ehf., segir dýrt að framleiða báta á Íslandi og meðal annars af þeim sökum eru bátar fyrirtækisins í hærri verðflokki en bátar margra samkeppnisaðila. Kostir hins nýja skrokks og smíðagæðin styðja þó verðmuninn fyllilega. Mikil þolinmæði liggur að baki þeim skrefum sem Rafnar ehf. hefur stigið á undanförnum árum. Páll segir nefnilega fátt í veröldinni dýrara í vöruþróun en bátar.

Verkfræðideild Háskóla Íslands hefur unnið að rannsókn sem felst í samanburði á mismunandi skrokkhönnun með samanburðarsiglingum. Nákvæm mælitæki eru notuð til að mæla áhrif sjóhæfni og sjólags á áhöfn og farþega. Fyrstu niðurstöður voru afdráttarlausar hvað varðar áhrif þeirra krafta sem verka á áhöfn og farþega, skrokkhönnun Rafnar ehf. Í hag.

N ánar er fjallað um Rafna ehf. og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í Frumkvöðlum , nýju aukablaði Viðskiptablaðsins.