Sjö af tíu mest seldu bókum liðinnar viku í Eymundsson eru skáldsögur. Fimm eru eftir íslenska höfunda: Yrsu Sigurðardóttur, Arnald Indriðason, Ólaf Jóhann Ólafsson, Jón Kalman Stefánsson og Hallgrím Helgason.

Tvær minningabækur ná inn á topp 10 í Eymundsson: Jarðlag í tímanum eftir Hannes Pétursson skáld og Sómamenn og fleira fólk eftir Braga Kristjónsson. Sálfræðingurinn Hugo Þórisson er í fjórða sæti á lista með sín eftirsóttu hollráð, og því eru átta íslenskar bækur á topp 10.

Fjölbreyttasta og metnaðarfyllsta útgáfan til þessa

Bryndís Loftsdóttir hjá Eymundsson segir að bóksala hafi farið mjög vel af stað í haust, enda hafi bókmenntahátíðin í Frankfurt haft jákvæð áhrif: „Október og nóvember voru því góðir mánuðir enda var fljótlega ljóst að útgáfa þessa árs væri líklega sú allra fjölbreyttasta og metnaðarfyllsta, sem þjóðinni hefur boðist hingað til. Fyrstu dagar desembermánaðar voru nokkuð daufir og þá hófst hinn árlegi titringur útgefenda sem oft fá þá flugu í höfuðið að bækur þeirra séu þær einu sem ekki seljast. En það þarf nú bara að standa í lappirnar og trúa á sín verk því salan fer oftast ekki af stað af neinum krafti fyrr en svona um eða upp úr 12. desember.“

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.