*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 27. janúar 2014 12:45

Hátækni úrskurðað gjaldþrota

Dótturfélag Landsbankans tók Hátækni yfir fyrir jól í fyrra. Fyrirtækið hefur verið leyst upp.

Ritstjórn

Fyrirtækið Hátækni var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur 20. janúar síðastliðinn, þ.e. á miðvikudag fyrir viku. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptastjóri hafi tekið við búinu og lýsir hann í blaðinu eftir kröfum þeirra sem telja sig eiga réttindi á hendur fyrirtækinu. 

Hátækni var að stórum hluta í eigu Olís. Reksturinn hafði verið þungur um nokkurt skeið og hlutafé fyrirtækins aukið í tvígang um samtals 180 milljónir króna í fyrra. Kristján Gíslason, stjórnarformaður Hátækni, sagði í yfirlýsingu að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Hátækni í þrjú ár hafi sömuleiðis tekið sinn toll og það reynst fyrirtækinu dýrkeypt. Dræm sala á Nokia-símum leiddi jafnframt til þess að Hátækni féll, að sögn Kristjáns.

Hátækni var með umboð fjölda fyrirtækja hér á landi. Fyrirtækið rak jafnframt samnefnda verslun við Ármúla. Dótturfélag Landsbankans tók fyrirtækið yfir um mánaðamótin nóvember/desember. Starfsfólki fyrirtækisins var sagt upp skömmu síðar og versluninni lokað. Umboð og sala á vörum Hátækni, svo sem símum og tólum frá Nokia og LG, var í kjölfarið flutt til Sjónvarpsmiðstöðvarinnar og Opinna kerfa. 

Stikkorð: Nokia Hátækni