Illskeytt deila geisar innan Barclay fjölskyldunnar, einnar ríkustu fjölskyldu Bretlandseyja. Auður fjölskyldunnar byggir á viðskiptaveldi hinna 85 ára gömlu tvíbura Sir Frederick og Sir David Barclay sem voru í 17. sæti á lista The Times á síðasta ári yfir ríkustu íbúa Bretlands. Auður þeirra er metinn á átta milljarða punda. Þeir eiga meðal dagblaðið The Telegraph. Samskipti innan fjölskyldunnar eru vægast sagt stirð.

Deilurnar komu upp á yfirborðið í október eftir að Frederick tilkynnti The Telegraph til sölu, að sögn kunnugra, án þess að láta fjölskyldu tvíburabróður síns vita. Tilkynningin um söluna átti sér stað skömmu eftir að Frederick hóf skilnaðarferli við Hiroko, eiginkonu sína til meira en fjörutíu ára.

Nýjasta vendingin í deilunni er að Frederick Barclay hefur hótað að stefna ættingjum sínum selji þeir hið sögufræga Ritz hótel í London á minna en milljarð punda, um 160 milljarða króna. FT greinir frá. Hótelið hefur verið í eigu fjölskyldunnar í aldarfjórðung.

Frederick fullyrðir að sér hafi borist tilboð í hótelið fyrir meira en milljarð punda. Verði það selt á lægra verði muni hann stefna ættingjum sínum.

Hlerunarbúnaður á Ritz?

Nokkrar vikur eru síðan Frederick stefndi sonum David og náfrændum sínum og sakaði þá um að hafa komið fyrir hlerunarbúnaði á Ritz hótelinu til að hlera samtöl milli Frederick og dóttur hans Amöndu.

Deilurnar hefur flækt söluferli Ritz hótelsins. Fjárfestar frá Sádí Arabíu, Katar eru sagðir hafa sýnt hótelinu áhuga sem og LVMH, stærsta tískuvöruveldi heims. Fjárfestarnir þurfa að sannfæra bæði fjölskyldur David og Frederick um að þeir séu réttur kaupandi, en fjölskyldurnar sjálfar talast vart við.