Hátt verð aðfanga bitnar á bændum og neytendum Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra  ýsti, í ræðu sinni á Búnaðarþingi í vikunni, yfir miklum áhyggjum af háu verði á áburði, fóðri, eldsneyti, öðrum aðföngum og fjármagni sem nú skelli með ofurþunga á landbúnaðinum. „Án þess að ég ætli að hafa uppi neina heimsendaspádóma, þá þarf ekki mikinn snilling til þess að sjá að þetta mun með einhverjum hætti bitna á bændum, afurðastöðvum og neytendum. Hækkun á verði aðfanga mun semsagt hafa neikvæð áhrif á lífskjör allra þeirra sem við þurfa að búa. Í þessu tilviki er víst enginn undanskilinn, svo mjög sem búvöruframleiðslan skiptir allan almenning máli, svo ekki sé talað um bændur og fyrirtæki þeirra. Þetta er þess vegna grafalvarlegt mál.“

Hann sagði að það yrði verkefni næstu mánaða og missera að bregðast við þessum breytingum og leita leiða til þess að vinna sig út úr vandanum. „Verðlagsnefnd búvara hefur að undanförnu skoðað þessi mál og mun gera það áfram frá öllum hliðum. Ætla má að hækkun kostnaðarliða í landbúnaði muni enn auka hagræðingu í greininni og hvetja menn til þess að leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði,“ sagði ráðherrann.