Röðull frá Ölvisholti.
Röðull frá Ölvisholti.

Hátt áfengisgjald hér á landi hefur valdið því að bjór er orðinn það dýr að fyrirtækið nær ekki fram nauðsynlegri framlegð, að sögn Arnar Héðinssonar, framkvæmdastjóra Ölvisholts Brugghúss. Helmingur framleiðslunnar er nú fluttur úr landi. Örn segir í samtali við Fréttablaðið í dag, áfengisgjaldið ekki í takt við raunveruleikann.

Í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, sagði frá því á miðvikudag að útflutningsverðmæti bjórs hafi rúmlega tvöfaldast á sama tíma og sala á bjór hafi dregist saman um rúm 12% í verslunum ÁTVR á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við sama tíma árið 2009. Samdrátturinn er talinn tengjast áfengisgjaldinu sem hefur hækkað um rúm 37 prósent frá árinu 2008. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram á Alþingi um mánaðamótin er gert ráð fyrir að gjaldið hækki á næsta ári um þrjú prósent til viðbótar.

Í Fréttablaðinu er haft eftir Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar- og þjónustu, að áfengisgjaldið er langstærsti hluti áfengisverðs og telji samtökin að hækkunin muni draga enn frekar úr sölu á áfengi hér á landi.