Hafnfirðingar greiða hátt álag á 5,5 milljarða króna skuldabréfaflokk til 30 ára sem bærinn gaf nýverið út og ætlað er að endurfjármagna eldri skuldir og fjármagna hjúkrunarheimili. Þetta er verðtryggðum jafngreiðsluflokkur með 3,75% vaxtamiða sem greiddur er tvisvar á ári.

Brynjar Örn Ólafsson skrifar um skuldabréfaflokkinn í grein sinni í Viðskiptablaðinu. Í greininni bendir hann á að þótt flokkurinn hafi ekki verið skráður á markað sé mögulegt að reikna heildargreiðsluflæði hans og reikna álag útboðskröfu flokksins á ríkistryggt. Niðurstaða hans er 95 punkta álag sem virðist hátt í samanburði við útboð sveitarfélaga frá árinu 2010. Hann bendir á að ekkert sveitarfélag hafi á þessum tíma selt eins mikið í einu útboði eða upp á 5,5 milljarða króna. Á eftir komi Akureyri með 3,1 milljarðs króna útgáfu í júlí árið 2012 en lánin báru 92 punkta álag.

Brynjar bendir m.a. á til samanburðar að erlend langtímalán bæjarins í lok árs 2013 voru 12 milljarðar króna á um 3,2% meðalvöxtum.