Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair gæti átti í efiðleikum með rekstur sinn ef olíuverð verður áfram hátt. Í frétt danska viðskiptablaðins Börsens kemur fram að hagnaður Ryanair lækkaði um 14% á fjórða ársfjórðungi rekstrarársins sem nær til þriggja fyrstu mánaða þessa árs.

Þannig lækkaði hagnaður félagsins um 27,7 milljónir evra. Velta félagsins jókst á sama tíma um 19% og nam 375,7 milljónum evra. Þetta sýnir að félagið virðist ekki eiga í vandræðum með að auka veltu sína en samdráttur í hagnaði veldur mönnum áhyggjum.

það er fyrst og fremst hár eldsneytiskostnaður sem veldur þessu en hann hefur vaxið um sem svarar 40% á fjórða ársfjórðungi og nam 110,7 miljónum evra.

Þrátt fyrir þennan samdrátt er afkoma félagsins betri en sérfræðingar Bloombergs áttu von á. Bréf félagsins hafa því aðeins lækkað um 1,9% við þessi tíðindi. Bréf félagsins hafa fallið um 18% það sem af er árinu og er markaðsvirði Ryanair um 5,2 milljarðar evra.

Ef olíuverð helst í kringum 70 dollara á tunnu gerir Ryanair ráð fyrir að það hafi veruleg áhrif á afkomu félagsins.