Aukning á aflmarki í þorski er alls ekki fyrirsjáanleg og horfurnar ekki beinlínis góðar en gera má sér vonir um að þorskeldi geti að einhverju leyti vegið þar upp á móti þegar fram líða stundir, sagði Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, en hann fjallaði í erindi sínu um stöðu sjávarútvegsins, áhrif niðurskurðar á kvóta og framtíðarhorfur í atvinnugreininni á morgunfundi Viðskiptablaðsins sem nú stendur yfir.

Eggert fór yfir stöðu einstakra fiskistofna og horfur um aflamark á þeim og sagði flesta stofna stöðuga en verri horfur með stóra og mikilvæga stofna eins og þorsks; því sé ekki horfur á miklum vexti í aflanum þegar horft sé nokkur ár fram í tímann.

Samþjöppun óhjákvæmileg

Eggert benti á að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vera smá og sagði að það væri hagstætt fyrir iðnaðinn í heild að til yrðu stærri og öflugri fyrirtæki. Þetta ætti sérstaklega við fyrirtæki í uppsjávarveiðum og -vinnslu.

Í máli Eggerts kom fram að framleiðslukostnaður á Íslandi hefði hækkað mikið og gengið hefði þar haft sitt að segja og þetta hafi komið illa við landvinnsluna. Eggert sagði einnig að þróunin væri sú varðandi markaðssetningu og sölu að fyrirtæki í virðiskeðjunni myndu vinna nánar saman. Hann benti á að eftirspurn eftir hollum fiski væri mikil á mörkuðum en blikur væru á lofti vegna mikils framboðs af ódýrum eldisfiski t.d. frá Asíu.

Eggert sagði að æ oftar væru settar fram kröfur um vottun um að veiðar væru sjálfbærar og sagði nauðsynlegt að Íslendingar kæmu sér upp sínu eigin merki til þess að mæta þessum kröfum.

Hann sagði draumastöðu sjávarútvegsins að því er varðaði rekstarskilyrði vera stöðugt gengi, lága vexti og litla verðbólgu en því hefði aldeilis ekki verið að heilsa á undanförnum misserum og árum.