Íslensk fyrirtæki verða frekar gjaldþrota en fyrirtæki í Danmörk og Noregi miðað við athugun Viðskiptablaðsins á gögnum hagstofa landanna. Teknar voru saman upplýsingar um fjölda gjaldþrota í hverjum mánuði og þær bornar saman við fjölda starfandi fyrirtækja, þe. einkahlutafélaga og hlutafélaga. Á undanförnum fjórum árum hafa 30 til 51 fyrirtæki á hver 1.000 sem eru starfandi verið tekin til gjaldþrotaskipta hér á landi.

Í Danmörku er hlutfallið á bilinu 18 til 22 fyrirtæki en um 11 til 14 í Noregi. Gjaldþrot eru alla jafna tíðari hér á landi miðað við fjölda fyrirtækja en í þessum tveimur samanburðarlöndum.

Samanburðurinn myndi koma enn verr út fyrir íslenska atvinnustarfsemi ef litið væri til mannfjölda í stað fjölda fyrirtækja. Í Noregi og Danmörk búa 16 til 18 sinnum fleiri en hér á landi en fyrirtæki í löndunum eru 10 til 11 sinnum fleiri en hér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.