Meira en 90 hjúkrunarfræðingar hafa sagt starfi sínu lausu eftir að lögbann var sett á verkfall þeirra síðastliðinn mánudag. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. 15 hjúkrunarfræðingar af Gjörgæsludeild hafa sagt upp.

Þá hafa tugir annarra starfsmanna Landspítalans einnig sagt upp störfum sínum, bæði geislafræðingar og lífeindafræðingar, og telja uppsagnirnar því á annað hundrað.

Alma D. Möller, læknir og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítalans, segir að ómögulegt verði að fylla í skörð allra sem sagt hafa upp.

„Við höldum að það eigi eftir að koma fleiri uppsagnir. Ég hef miklar áhyggjur af þessu ástandi og það verður að ná samningum við hjúkrunarfræðinga,“ sagði Alma í fréttum Stöðvar 2 og varar við afleiðingum frekari uppsagna.

„Það yrði ekki hægt að framkvæma eins margar aðgerðir og ekki hægt að veita eins mörgum sjúklingum gjörgæslumeðferð eins og nú er.“