Von er á hátt í 150 grunnskólanemendum á aldrinum 10-15 ára til þátttöku í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL), sem haldin verður á morgun í Háskólabíói. Þetta er í áttunda sinn sem keppnin er haldin hér á landi.

„Markmiðið með keppninni er að blása ungu fólki í brjóst löngun til að skara fram úr á sviði tækni og vísinda. Boðið er upp á spennandi verkefni sem efla færni í vísindum, verkfræði og tækni, örva nýsköpun og byggja upp hæfileika eins og sjálfstraust og samskipta- og forystuhæfni. Á hverju ári er keppninni valið ákveðið þema sem er ofarlega á baugi í heiminum. Í ár verður þemað náttúuöfl,“ segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands. Sigurvegari keppninnar reynir sig á Evrópumóti FIRST LEGO League.

Fjórtán lið víðs vegar af landinu hafa skráð sig til leiks og eru á bilinu 6-10 manns eru í hverju liði ásamt fullorðnum liðsstjóra. Öll lið fengu senda þrautabraut ásamt upplýsingum um rannsóknarverkefni í nóvember.

Dagskrá keppninnar hefst kl. 9 á laugardagsmorgun í Háskólabíói og reiknað er með að sigurvegarar verði krýndir um klukkan 16.

Upplýsingar um keppnina má nálgast á heimasíðu, www.firstlego.is og Facebook-síðu keppninnar, https://www.facebook.com/FLLaIslandi