Stærstu eigendur Íslandsbanka fjármagna kaup sín með framvirkum samningum og koma því ekki fram í hluthafaskrá bankans. Líklega nemur andvirði framvirkra samninga í bankanum í kringum 20 milljörðum króna eða hátt í 25% af heildarhlutafé. Eignarhald bankans breyttist töluvert fyrr á árinu og í kjölfarið tóku nokkrir nýir aðilar sæti í stjórn og stjórnarformannsskipti urðu. Margir drógu þó í efa fjárhagslegt bolmagn þeirra sem keyptu stóra hluti í bankanum. Eigendur framvirkra samninga í bankanum sjást á hluthafalistanum til vinstri.

Athygli vekur að eigin bréf Íslandsbanka nema rúmlega 8% af heildarhlutafé en Jón Þórisson, framkvæmdastjóri útibúasviðs Íslandsbanka segir að stór hluti eignar Íslandsbanka sé vegna framvirkra samninga. "Einnig höfum við orðið varir við aukinn áhuga á bankanum og við viljum eiga bréf til að selja þegar þar að kemur," segir hann.

Samkvæmt Fréttablaðinu

þann 20. júlí hefur óstofnað félag í eigu Steinunnar Jónsdóttur fest kaup á hátt í 5% hlut í bankanum en Steinunn er dóttir Jóns Helga Guðmundssonar í Byko. Viðskiptablaðið náði hvorki í Jón Helga né Steinunni áður en blaðið fór í prentun.

Framvirkir samningar Milestone Import Export Ltd. voru á gjalddaga þann 15. júlí en þeir hafa ekki verið gerðir upp. Framvirkir samningar Helga Magnússonar voru í upphafi um hátt í 9,3% í bankanum en hafa nú verið lækkaðir í 7,5%. Einnig framlengdi Helgi framvirku samningana þar til 1. september. Gengið í framvirku samningunum var í kringum 8,5 en þá var markaðsgengið 7,5. Lokagengi í gær var 9.