Tæplega 20 þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun til forseta Íslands á vef Indefence þess efnir að hann synji nýjum lögum vegna Icesave samkomulagsins.

Undirskrifasöfnunin hefur nú staðið yfir í tæpa viku og hafa yfir 19.900 einstaklingar skráð nöfn sín á síðuna en Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

Á vef Indefence kemur fram að við staðfestingu laga frá því í sumar hafi forseti Íslands ítrekað mikilvægi fyrirvara Alþingis með sérstakri áritaðri tilvísun til þeirra, sbr. yfirlýsingu hans dags. 2. september 2009.

„Þeir fyrirvarar við ríkisábyrgð sem samþykktir voru í ágúst voru sameiginleg niðurstaða fjögurra þingflokka á Alþingi og byggðust á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi,“ segir á vef Indefence.

„Fyrirvararnir taka mið af sanngjörnum rétti og hagsmunum Íslendinga og alþjóðlegri samábyrgð, eins og segir í yfirlýsingu forseta Íslands. Fyrirvararnir sem mestu skipta til að takmarka ríkisábyrgðina og verja hagsmuni þjóðarinnar vegna Icesave-samninganna eru í nýja frumvarpinu nánast að engu gerðir. Með samþykki þessa frumvarps verða skuldbindingar íslenska ríkisins á ný ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.“

Sjá nánar á vef Incefence.