*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 24. maí 2020 13:09

Hátt í 200 kílómetra hleðsla á 5 mínútum

Ný kynslóð hraðhleðslustöðva mun geta hlaðið margfalt hraðar en þær sem fyrir eru. Þær fyrstu rísa í sumar.

Júlíus Þór Halldórsson
Tesla ofurhleðslustöð (e. supercharger) í notkun.
epa

Eftir mikla fjölgun rafbíla síðustu misseri – sem eru hátt í 5.000 talsins á götum landsins í dag og hefur fjölgað um yfir 2.000 síðustu 18 mánuði – er álagið á net hraðhleðslustöðva um landið orðið nokkuð, enda getur hver stöð bara hlaðið einn bíl í einu. Í ofanálag er 50 kílóvatta hámarkshraði stöðvanna helst til lítill fyrir nýlega bíla með stærri rafhlöður en áður, og getu til að taka við margfalt hraðari hleðslu.

Samið hefur verið um opinbera styrki til uppsetningar 43 nýrra stöðva sem munu geta hlaðið tvo eða fleiri bíla í einu, og einn bíl á allt að 150 kílóvöttum. Uppsetning þeirra hefur þó tafist.

Til viðbótar við nýju stöðvarnar sem styrkirnir ná til rekur rafbílaframleiðandinn Tesla sitt eigið hleðslustöðvanet, sem aðeins þeirra bílar geta notað, svokallaðar ofurhleðslustöðvar (e. supercharger). Fljótlega eftir opnun útibús hér á landi síðastliðinn september var fyrstu slíku stöðinni komið fyrir við húsnæði þeirra við Krókháls.

Vonast til að opna fyrir íslenska ferðasumarið
Henni til viðbótar stendur til að opna stöðvar í Staðarskála, á Akureyri, Egilsstöðum og Kirkjubæjarklaustri, og verða þær af nýjustu gerð, sem er 250 kílóvött, fimmfaldur sá hraði sem ON hleðslustöðvarnar bjóða í dag. N1 mun sjá um uppsetningu stöðvanna, sem verða við bensínstöðvar olíufélagsins, og munu geta hlaðið í það minnsta fjóra bíla samtímis, hvern og einn á allt að 250 kílóvöttum.

Á þeim hraða má hlaða Tesla Model 3 Long Range – einn vinsælasta bíl Tesla í dag – úr 20% í 50% á aðeins 5 mínútum, en hámarkshraði næst aðeins á því hleðslubili og við kjöraðstæður að öðru leyti. Ekki þarf því annað en að bregða sér á salernið við Staðarskála meðan bíllinn er í hleðslu til að bæta um 170 kílómetrum við hleðsluna miðað við uppgefnar tölur Tesla.

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, segir að stefnt sé að því að fyrsta stöðin rísi við Staðarskála áður en hið íslenska ferðasumar byrjar, en segir þó erfitt að lofa því, enda aðeins örfáar vikur í það. „Það er mikill áhugi hjá Tesla að vinna hratt og örugglega með okkur og þau sjá mikið virði í okkar staðsetningum.“

Samhliða Tesla-stöðvunum hyggst N1 setja upp eigin stöðvar fyrir rafbíla annarra framleiðenda. Aðspurður segir Hinrik allt kapp lagt á að koma stöðvum félagsins upp sem fyrst, en erfitt sé að segja fyrir um það á þessu stigi máls hvenær það verði. „Allur búnaðurinn er löngu kominn til landsins, en það bara stendur á öðrum en okkur að geta komið þessu upp, því miður,“ segir Hinrik. Þó liggur fyrir að fyrsta stöð félagsins mun opna við Krónuna og Elko í Lindum nú í júní.

Stefnt á sumarið en óvissan mikil
Í skriflegu svari Orku náttúrunnar við fyrirspurn blaðsins segist raforkufyrirtækið stefna á að setja upp allt að tíu 150 kílóvatta stöðvar á árinu. Stöðvarnar verði í Reykjavík og á helstu ferðaleiðum norður í land og um Suðurland. ON hefur þegar lokið útboði á stöðvunum sjálfum, en afhending þeirra hefur tafist vegna heimsfaraldursins og þær því ekki komnar til landsins.

Ísorka fékk styrk til að setja upp alls níu 150 kílóvatta stöðvar, og stefnir á að þær fyrstu fari upp á þessu ári. Fyrir rekur félagið fimm 50 kílóvatta hraðhleðslustöðvar; þrjár á landsbyggðinni og tvær á höfuðborgarsvæðinu. Ekki fengust svör um nákvæmlega hvenær eða hvar nýju stöðvarnar munu rísa, en meðal þeirra sem til stendur að bæta við verða stöðvar á Suðurlandi, Snæfellsnesi, Norður- og Austurlandi.

Tæknifyrirtækið Tæknivit mun setja upp alls sjö 150 kílóvatta stöðvar, eftir að hafa gefið frá sér samninga um nokkrar stöðvar á Vestfjörðum til Orkubús Vestfjarða. Til stendur að fyrsta stöðin rísi í Borgarnesi nú í sumar, en hinar sex á næsta ári. Tvær þeirra verða í Keflavík, en auk þess verða stöðvar á Vegamótum á Vesturlandi, á Þingvöllum, við Geysi og í Skaftafelli.

Fátt liggur fyrir um hvenær stöðvar Olís verða settar upp, en samkvæmt Jóni Ólafi Halldórssyni, forstjóra félagsins, er helst horft til Norðlingaholts – sem er í jaðri borgarinnar á leið á Suðurland – fyrir fyrstu stöðina. Félagið rekur fyrir hraðhleðslustöð í Álfheimum, en Jón segir uppsetningu nýju stöðvanna miða hægt. Lögð sé áhersla á varfærin en örugg skref í þessum efnum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: N1 Olís Tesla rafbílar ON Tæknivit