Nú hafa hátt í 200 konur lokið námskeiði í samningatækni fyrir konur á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þetta kemur fram á vef Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMI).

„Því má segja að Nýsköpunarmiðstöð hafi haft áhrif á lífsgæði og kjör 200 kvenna á höfuðborgarsvæðinu, en markmið námskeiðsins er að kynna konum grunnhugmyndir samningatækninnar og þjálfa þær í að nota samningatæknina í samskiptum sínum og samningum, sér og fyrirtækjum sínum eða atvinnurekendum til hagsbóta,“ segir á vef NMI.

Þá kemur fram að í vor voru haldin fjölsótt námskeið í samningatækni í samstarfi við SFR og BSRB í Reykjavík og í haust verður boðið upp á námskeið í samningatækni í Vestmannaeyjum, á Egilsstöðum, Ísafirði og Akureyri í samvinnu við SFR og BHM, en námskeiðið er frítt fyrir félagsmenn aðildarfélaganna.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Sif Sigfúsdóttir markaðsstjóri viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands.