Á annað hundrað manns hafa sótt um atvinnuleysisbætur á degi hverjum hjá Vinnumálastofnun síðustu vikurnar. Alls 9.293 eru skráðir hjá stofnuninni. Þar af eru um 10% með bætur í hlutastarfi.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun sóttu að meðaltali 212 um atvinnuleysisbætur á degi hverjum hjá stofnuninni í síðustu viku. Að meðaltali 135 sóttu um bætur hjá stofnuninni á degi hverjum í þessari viku.

Atvinnuleysið er nú um 5,5% og fer vaxandi.

Bætur á mánuði eru rúmar 136 þúsund krónur. Fyrstu þrjá mánuði eftir atvinnumissi greiðir Vinnumálastofnun 80% af heildarlaunum en þó aldrei meira en rúmlega 220 þúsund á mánuði.