Búast má við að hátt í 2.000 íbúðir rísi miðsvæðis í Reykjavík á næstu þremur árum ef marka má lausar lóðir og byggingaheimildir á svæðinu.Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir þéttingu byggðar á miðsvæðinu. Uppbygging miðsvæðis er töluverð og eru framkvæmdir á slippsvæðinu og hinum svokallaða Héðinsreit þegar komnar í farveg og er þar gert ráð fyrir 700-900 íbúðum auk atvinnuhúsnæðis.

Á Keilugranda á að byggja 60-80 íbúðir og á Lýsislóðinni 80-120 íbúðir. Þá er á hinni svokölluðu Byko-lóð fyrirhuguð bygging 50-70 íbúða og á Landhelgisgæslureitnum um 50-70 íbúðir.

Allt er þetta á áætlun fyrir tímabilið 2012-2016 og er stærsta mögulega samtala 1.240 íbúðir. Auk þessa kemur töluverð uppbygging í Hlíðunum, þar á meðal á Hlíðarenda, og á nokkrum landsvæðum nálægt Hlemmi. Þá eru í byggingu 400 stúdentaíbúðir sem teknar verða í notkun á næstu tveimur árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .