Viðskiptavinahópur RB hefur stækkað nokkuð frá því að fyrirtækið var gert að hlutafélagi árið 2011. Þetta segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Viðskiptablaðið Á meðal helstu viðskiptavina eru Seðlabankinn og ýmis dótturfyrirtæki hans eins og Greiðsluveitan, bankarnir, sparisjóðir og færsluhirðar. Svo hafa verið að bætast við tryggingafyrirtæki og ýmsar smærri fjármálastofnanir. Í heild eru viðskiptavinirnir hátt í 40 og Friðrik segir að það séu talsverð tækifæri til stækkunar bæði með því að fjölga viðskiptavinum en einnig að auka viðskipti við núverandi viðskiptavinahóp.

„En ég sé aldrei fyrir mér að öll tækniþjónusta fari fram hér. Það er mjög eðlilegt að allt sem snýr að samkeppnismálum og samkeppnisskapandi afurðum sé áfram innan bankanna en þeir leiti leiða til að hagræða með einhvers konar samnýttri þjónustu sem þeir kaupa af okkur eða einhverjum öðrum aðilum. En svo eru aðrir viðskiptavinir sem koma vel til greina og eru tryggingafyrirtæki, lífeyrissjóðir og önnur fjármálafyrirtæki sem eru að leita að þeirri þjónustu og því öryggi sem við erum að bjóða upp á,“ segir Friðrik.

Hann segir að fyrstu tvö árin eftir að fyrirtækið var hlutafélagavætt hafi farið í að efla stoðirnar, byggja upp sölusvið, ný þjónustukerfi, þjónustuferla, þjónustuafurðir og bjóða það til núverandi viðskiptavinahóps. Í lok síðasta árs hafi svo verið byrjað á herferð til að kynna þjónustu RB fyrir mögulegum nýjum viðskiptavinum. Friðrik segir þó að hinn almenni neytandi verði vonandi lítið var við RB.

„Það sem við gerum bönkum kleift að gera er að færa fjármuni frá einni stofnun til annarrar. Á Íslandi færast fjármunir frá einum bankareikningi til annars í rauntíma. Þetta gerist samstundis. Erlendis tekur það einn til fjóra vinnudaga. Svo lengi sem þessir fjármunir eru að skila sér þá verður fólk ekkert vart við okkur.Ef hins vegar eitthvað klikkarí greiðslumiðlun í landinu þá verður það virkilega vart við okkur, ef debetkortin virka ekki eða ekki er hægt að komast inn í netbanka. Þess vegna leggjum við mikið upp úr rekstraröryggi,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .