Frá og með árinu 1956, þegar íslensk stjórnvöld tóku á móti 52 Ungverjum, hefur alls 481 flóttamanni verið veitt hæli á Íslandi.

Frá því flóttamannaráð, sem nú kallast flóttamannanefnd, tók til starfa árið 1996 hefur nær árvisst verið tekið á móti hópum flóttamanna.

Þakklátir og treysta Íslendingum

Könnun sem gerð var árið 2004 leiddi í ljós að flóttafólki hefur almennt farnast vel hérlendis, að því er fram kemur í upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu. Mikill meirihluta þeirra sem sjónum var beint að gegndi launuðu starfi og rúmur helmingur hafði áhuga á frekara námi.

Þá kom fram að mikill meirihluti treysti Íslendingum fullkomlega eða mjög vel og taldi mikilvægustu þætti í lífi þeirra vera fjölskyldan og vinnan. Allir sem tóku þátt í viðtalskönnuninni lýstu yfir þakklæti fyrir þá aðstoð sem þeim hafði verið veitt hér á landi.

Utanríkisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa gert með sér samkomulag um að hið fyrrnefnda leggi fram fjármagn til að standa straum af móttöku 25–30 flóttamanna á hverju ári.

Verður árlega varið allt að 100 milljónum króna til þessa verkefnis, fyrst og fremst til að veita flóttafólkinu nauðsynlega aðstoð og stuðning fyrsta dvalarárið, en einnig til ferðakostnaðar.