Hátt í 500 manns sóttu um sumarstörf hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Nýherja í ár. Unnið er úr umsóknum og er gert ráð fyrir að þeim verði lokið á næstu dögum.

„Við finnum fyrir vaxandi áhuga ungs fólks á að vinna hjá Nýherja og í upplýsingatækni. Sá fjöldi sem sótti um hjá okkur í ár endurspeglar þá þróun,“ segir Dröfn Guðmundsdóttir mannauðsstjóri Nýherja. „Það sem er skemmtilegt við þennan fjölda umsókna er að konur sækja orðið í vaxandi mæli um störf hjá fyrirtækinu og vonandi er það merki um að þeim fari fjölgandi í heimi upplýsingatækni á komandi árum,“ segir Dröfn.

Dröfn segir að lokað sé fyrir skráningu í sumarstörf en ávallt sé tekið við almennum umsóknum. „Það er mikil eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki hjá Nýherja og helst það í hendur við góða verkefnastöðu hjá okkur,“ bætir hún við.

Hjá Nýherja starfa hátt í 280 sérfræðingar í upplýsingatækni. Dótturfélög Nýherja eru Applicon á Íslandi og í Danmörku og TM Software. Hjá Nýherjasamstæðunni starfa um 460 manns.