Félagið V86 ehf. var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 24. október 2012 og lauk skiptum með úthlutunargerð úr búinu þann 7. júlí 2014, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í vikunni. Lýstar kröfur í þrotabú félagsins V86 ehf. námu samtals 693.604.525 kr.

Síðasti ársreikningur sem félagið birti er frá árinu 2010. Þar kemur fram að eigendur félagsins hafi verið Svanur Kristbergsson og Þorsteinn Stephensen, sem hafi átt félagið til helminga.

Að sögn skiptastjóra þrotabúsins var félagið stofnað utan um uppbyggingu á svokölluðum Stjörnubíósreit. Þar voru byggð íbúðarhús og verslunarhúsnæði sem félagið átti þátt í. Hann segir félaginu hafa gengið ágætlega framan af en eftir hrun hafi farið að halla undan fæti. Þorsteinn er þekktur tónleikahaldari og rak um árabil tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. Þá keyptu Svanur og Þorsteinn veitingastaðinn Kaffibarinn árið 2007. Að sögn skiptastjóra tengdist V86 þeim fjárfestingum ekkert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.