Olíuverð setti svip sinn á þróun á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í gær. Olíuverð hefur hækkað síðustu daga og stendur nærri þeim hæðum sem það náði í síðasta mánuði. Fellibylurinn Ivan og hefur dregið úr framboði á hráolíu í Bandaríkjunum og ákvað ríkisstjórnin í gær að lána takmarkað magn úr varabirgðum þjóðarinnar til þess að mæta þessum skorti.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að fjárfestar vestanhafs virðast hafa litla trú á því að þessar aðgerðir dugi til. Jafnframt hafa þeir áhyggjur af þeim áhrifum sem hátt olíuverð hefur á efnahagslífið, til að mynda í gegnum einkaneyslu og afkomu fyrirtækja. Vegna þessa lækkaði verð hlutabréfa í fyrirtækjum sem eru næm fyrir hagsveiflunni. S&P 500 vísitalan lækkaði um 0,5% en Nasdaq vísitalan var nærri óbreytt milli daga. Dow Jones vísitalan lækkaði um 0,7% og hefur vísitalan ekki verið lægri síðan 17. ágúst.