Guðfinnur S. Halldórsson hjá Bílasölu Guðfinns segir of lítinn verðmun á nýjum bílum og notuðum á markaðnum í dag.

Segir hann flestar bílasölur vera fullar af notuðum bílum á of háu verði, en í Morgunblaðinu í dag kemur fram að á þeim rúmum 48 árum sem hann hafi verið á markaðnum hafi ástandið aldrei verið eins og nú.

Vísar frá fólki vegna of hárra verðhugmynda

„Það er ljóst að verð á notuðum bílum þarf að lækka meira en það hefur gert og þá í samhengi við lægra verð á nýjum bílum," segir Guðfinnur.

„Það er hægt að taka dæmi af Toyota Yaris. Það er hægt að fá nýjan slíkan bíl fyrir 1.900 þúsund krónur. Þá gengur ekki að fólk sé að reyna að fá 700-800 þúsund fyrir Yaris frá árinu 2006.“

Guðfinnur, sem segist hafa þurft að vísa fólki sem vilji selja bíla sína frá vegna óraunhæfra verðhugmynda, segir tvær ástæður fyrir miklu framboði af eldri bílum.

Koma mikið eknir inn á markaðinn frá bílaleigum

Annars vegar sé það mikill bílainnflutningur vegna umsvifa bílaleiga í kringum ferðaþjónustuna og að of gamlir bílar séu í umferð. „Það er ágæt þumalputtaregla að markaðurinn þurfi 10 til 15 prósent endurnýjun á ári," segir Guðfinnur.

„Það þýðir að ef það eru 200 þúsund bílar á markaðnum þá þurfi 20-30 þúsund nýja bíla á ári. Það er svipað og verið er að flytja inn núna þó mjög stór hluti af því fari beint í bílaleigurnar og komi svo inn á markaðinn sem mikið eknir bílar.

Hins vegar verður framboðið svona mikið því meðalaldurinn á flotanum er ekki að lækka nægilega mikið.“

Meðalaldur bíla hár hér á landi

Segir Guðfinnur mikinn bílainnfluting af hálfu bílaleiganna skekkja markaðinn verulega.

„Þeir hafa haldið uppi innflutningnum síðustu árin og það er hætt við að markaðurinn nái ekki jafnvægi fyrr en þær finna aðrar leiðir til að þjónusta sína viðskiptavini,“ segir Guðfinnur sem leggur til að hægt sé að flytja bíla inn og út fyrir sumarvertíðina á erlendum númerum.

Bílum á Íslandi hefur fjölgað um 6% frá árinu 2015 og eru þeir nú orðnir 344.664 eða fleiri en allir íbúar landsins eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Hins vegar hafi meðalaldur bílanna lækkað úr 12,7 árum í 12,5 ár á milli áranna, en íslenski bílaflotinn er sagður í Árbók bílgreina vera gamall í alþjóðlegum samanburði.