Fulltrúar Frakklands, Hollands, Austurríkis og Þýskalands í Seðlabanka Evrópu hafa allir talað opinberlega í vikunni um mikilvægi þess að stefnu bankans verði breytt þegar Christine Lagarde tekur við sæti Mario Draghi sem bankastjóri. Financial Times greinir frá og segir ummæli fulltrúana til marks um að þeir telji nú vænlegra að þrýsta á Lagarde frekar en að gagnrýna Draghi í baráttu sinni fyrir aðhaldssamari stefnu peningamála.

Fulltrúarnir fjórir eru iðulega kallaðir haukarnir sökum gagnrýni sinnar á lausatök Mario Draghi við stjórn peningamála. Að mati haukanna hefur stefna bankans undanfarin ár verið allt of slök. Fyrr í mánuðinum mótmæltu þeir til að mynda harðlega tilraun Darghi til að ýta undir útlánavöxt í bankakerfinu með kaupum Seðlabankans á skuldabréfum fjármálafyrirtækja (magnbundin íhlutun).

Fulltrúi Þýskalands, Jens Weidmann, hefur um árabil verið í fararbroddi haukanna og haldið uppi háværri gagnrýni á bankastjórann og stefnu hans. Í ræðu sem hann hélt í New York síðastliðinn miðvikudag sagði hann lykilatriði að aðgerðir seðlabanka tækju mið af  þröngri skilningi á markmiði þeirra um verðstöðugleika, ella væri sjálfstæði þeirra stefnt í voða.

Ný verði birtist í fjölmiðlum minnisblað undirritað af haukunum fjórum þar sem síðasta lota magnbundinnar íhlutunar seðlabankans var gagnrýnd af meiri hörku en áður hefur sést í deilunni innan bankans. Staðhæft er í blaðinu að íhlutun bankans sé grundvölluð á rangri greiningu á vandanum og bryti þar að auki gegn sáttmála Evrópusambandsins sem banni Seðlabankanum að fjármagna ríki Sambandsins með prentun peninga.

Minnismiðinn fékk óvenjulega mikla umfjöllun í fjölmiðlum og segir Financial Times að stuðningsmenn Draghi óttist að með minnisblaðinu vilji haukarnir grafa vitsvitandi undan bankanum.