Mannabreytingar áttu sér stað í peningastefnunefnd Seðlabankans í mars á síðastliðnu ári og í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka er rýnt í hvaða áhrif það kunni að hafa haft á peningastefnu bankans. Bendir Greiningin á að aðeins tvisvar sinnum af átta skiptum að tillögur Seðlabankastjóra um stýrivexti voru samþykktar samhljóða. Í þessi tvö skipti var það þó þannig að þrátt fyrir að allir nefndarmenn hafi stutt tillögu seðlabankastjóra þá hefði einn nefndarmaður kosið aðra niðurstöðu.

Katrín Ólafsdóttir, lektor við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, tók sæti breska hagfræðingsins Anne Sibert sem vék úr nefndinni í fyrra. Greining Íslandsbanka telur líklegt að Katrín hafi ekki verið eins mikill hávaxtasinni og Anne, sem oftast var þeirrar skoðunar að vaxtaaðhald bankans ætti að vera meira en niðurstaðan var hverju sinni. „Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur einnig haldið sig hauksmegin en háskólaprófessorinn Gylfi Zoega hefur verið dúfan í hópi nefndarmanna. Hann hefur oftast verið þeirrar skoðunar að vextir ættu að vera lægri en niðurstaða nefndarinnar var við vaxtaákvarðanir. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri hefur oftast nær verið sammála Má Guðmundssyni seðlabankastjóra hvað vexti varðar.“

Á fimmtudaginn verður ársskýrsla Seðlabanka Íslands birt og má þar sjá hvernig atkvæðin féllu á vaxtaákvörðunarfundum bankans á árinu.