Orka Energy Holding, félag sem keypti erlend dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fyrir 365 milljónir króna síðastliðið haust, er í eigu Orka Energy Pte. Ltd., félags skráð í Singapúr. Það félag er í eigu Hauks Harðarsonar, sem er kjölfestufjárfestir í félaginu, og starfsmanna Orku Energy Holding. Sagt er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Orka Energy keypti einnig um 80% hlut Geysis Green Energy í Enex Kína í haust. Ef greitt var sama verð á hlut og OR fékk þá mun kaupverðið hafa verið um 1,3 milljarðar króna. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár var ný stjórn skipuð í Orku Energy Holding þann 19. desember 2011. Þar kemur fram að í henni sitji Haukur Harðarson, sem er stjórnarformaður, Thomas Patrick Reilley, Eldur Ólafsson, Skúli Valberg Ólafsson og Nigel Patrick Dunmore.