Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði í dag Hauk F. Leósson sem varaformann stjórnar Íbúðalánasjóðs. Haukur var stjórnarformaður Orkuveitunnar frá 2006 til 2007, þegar viðskipti vegna REI bar sem hæst.

Hann vann hjá N. Mancher og Co, Endurskoðun, sem síðar varð PWC, frá 1957 til 1968. Hjá Landsvirkjun vann hann við fjárhagsáætlanir og sem aðalbókari frá 1969 til 1984 og frá 1985 til 2005 sem skrifstofustjóri Endurskoðunar hf, sem síðar varð KPMG ehf., og vann þar við gerð ársreikninga og skattframtala. Haukur vann sem framkvæmdastjóri Húsmúla, fasteignafélags frá 2006 til 2007.

Haukur sat líka í innkauparáði Reykjavíkurborgar frá 1998 til 2006. Í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins sat hann frá 2006 til 2010 og í stjórn AP almannatengsla frá 2006 til 2009.