Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri í gamla Landsbankanum, hefur verið ákærður fyrir fjárdrátt. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, þar sem Haraldur var ekki nafngreindur, kom fram að hann er sakaður um að hafa dregið sér hátt í 120 milljónir króna. Málið hefur verið í rannsókn hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Í samtali við Morgunblaðið í desember 2008 sagðist Haukur hafa verið að bjarga verðmætum vegna setningu neyðarlaganna.

„Efnislega inntakið er að í öllum hasarnum í hruni bankanna snerist umræðan um það að innlán í eigu erlendra aðila, þ.m.t. aflandsfélaga [off-shore], yrðu látin frjósa úti. Þetta var liður í stærri aðgerð til þess að bjarga slíkum innlánum,“ sagði Haraldur, sem var ekki nafngreindur, við Morgunblaðið í desember.  Hann sagði að viðkomandi eignarhaldsfélag hefði ekki verið í sinni eigu. „Þetta var í eigu sjálfseignasjóðs sem er skráður erlendis,“ sagði hann. Aðspurður hvaða hagsmuni hann hefði haft af því að framkvæma millifærsluna sagði hann að reynt hefði verið að bjarga innlánum í eigu fleiri en eins félags. „Þetta var eitt af félögunum sem reynt var að bjarga og það var gert á þennan klaufalega hátt.“

Í Morgunblaðinu kom fram að um hafi verið að ræða erlent félag sem Haraldur hefði séð um í mörg ár og átti innistæður í Landsbankanum. Haraldur hefði talið að innistæður erlendu félaganna væru ekki tryggðar, en millifærslan var gerð rétt eftir setningu neyðarlaganna.

Í hádegisfréttum Rúv kom fram að málið komst upp þegar skilanefnd Landsbankans fékk endurskoðunarfyrirtæki til að keyra saman háar fjárhæðir og kennitölur starfsmanna bankans. Ekki er vitað til þess að fleiri mál af þessu tagi hafi uppgötvast.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir tæpa viku samkvæmt Rúv. .