Haukur Þór Hauksson, viðskiptafræðingur í Garðabæ, hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar og mun hann sækjast eftir 4. sæti framboðslistans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hauk.   Haukur Þór er með Cand. Oecon gráðu í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands en auk þess hefur hann aflað sér löggildingar í verðbréfamiðlun og ACI Financial Dealing Certificate viðurkenningar.

Haukur Þór hefur á undanförnum árum aflað sér víðtækrar starfsreynslu á vettvangi fjármálastofnana sem og endurskoðunar og fyrirtækjaráðgjafar.   Haukur hefur sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og situr nú í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ. Þá var hann fyrsti varabæjarfulltrúi kjörtímabilið 2002-2006 og formaður atvinnuþróunarnefndar. Hann starfar nú við fyrirtækjaráðgjöf.   Í tilkynningunni kemur fram að Haukur telur það liggja í augum uppi að brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála sé að finna lausnir á þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin gengur nú í gegnum. Í því sambandi leggur Haukur áherslu á að álögum á einstaklinga og fyrirtæki verði haldið eins lágum og kostur er auk þess sem strangs aðhalds verði gætt í ríkisfjármálum.