Framlög velgjörðarmanna Barnaspítala Hringsins eru á fimmta hundrað milljónir seinustu þrjú ár. Er svo komið að þorri tækjakosts spítalans er keyptur fyrir gjafafé. Ríkið ætlar spítalanum lítið fé til tækjakaupa fyrir vikið.

Velgjörðarmenn Barnaspítala Hringsins hafa seinustu þrjú ár gefið á milli 430-450 milljónir króna til styrktar starfsemi hans og vegur þar langþyngst gjöf Jóhannesar Jónssonar í Bónus og barna hans, Jóns Ásgeirs og Kristínar, 300 milljónir króna, sem eyrnamerkt var hágæslu og greiðist út á fimm ára tímabili.

Stærsta einstaka framlag þar á eftir er 50 milljón króna gjöf Kvenfélags Hringsins á seinasta ári, en framlag Hringskvenna til spítalans undanfarna áratugi hefur verið stórfellt. Sem dæmi má nefna stórgjöf þeirra, 150 milljónir, til byggingar Barnaspítalans.

Nú er það svo að starfsemi Barnaspítalans reiðir sig mjög á framlög velunnara sinna og má áætla að 70-80% af tækjum spítalans séu keypt fyrir gjafafé. Hjá sumum viðmælendum Viðskiptablaðsins kom berlega fram uggur um að þrengingar í efnahagslífi gætu bitnað á örlæti velunnara, sem komið gæti illa við starfsemi spítalans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .