Að mati Samtaka atvinnulífsins er ákvörðun Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum atvinnulífinu mikil vonbrigði. „Ákvörðunin vekur einnig undrun í ljósi hagspár bankans um minni framleiðsluspennu en áður og að verðbólga verði undir markmiði bankans fram til ársloka 2018,“ segir í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins .

Samtök atvinnulífsins benda á að Seðlabankinn hafi nú birt spá sína um gengisþróun krónunnar sem er mikilvæg forsenda verðbólguspár. Eins og flestir vita, þá hefur gengi hennar styrkst mikið síðustu misserin, sem hefur í kjölfarið stuðlað að minni verðbólgu en ella. Spár Seðlabankans hafa hingað til gert ráð fyrir og byggst hafa á óbreyttu gengi krónunnar.

Efnahagslegt ójafnvægi

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur áhyggjur af vaxandi þenslu og vill því viðhalda ströngu vaxtaaðhaldi. „Háir vextir Seðlabankans eiga þátt í hjöðnun verðbólgu en gengisstyrking krónunnar vegur þó þyngst í þeirri þróun. Auk þess hafa nýjar varúðarreglur haldið aftur af útlánaþenslu í bankakerfinu,“ segir í frétt SA.

Þau benda jafnframt á að þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi reynt að sporna gegn gengisstyrkingu krónunnar með 624 milljarða gjaldeyriskaupum frá ársbyrjun 2015, hefur krónan styrkst allverulega síðan þá, eða um 26%. Þá verður við óbreytt vaxtastig hávaxtaumhverfið á Íslandi enn mjög eftirsóknarvert fyrir erlenda fjárfesta að mati SA. Dragi Seðlabankinn úr gjaldeyrisinngripum við þessar aðstæður mun það leiða til enn frekari styrkingar krónunnar. „Sterk króna eykur spurn eftir innfluttum vörum og þjónustu því þriðjungur neysluvara er innfluttur. Við núverandi aðstæður stuðla háir vextir Seðlabankans að enn frekari hækkun gengis krónunnar. Óumdeilt er að gengið er hærra en samræmist efnahagslegu jafnvægi og núverandi styrkur krónunnar því ósjálfbær,“ taka þau fram.

Deila áhyggjum Seðlabankans

Samtök atvinnulífsins telja að ástæða sé fyrir því að deila áhyggjum Seðlabankans af vaxandi þenslu í efnahagslífinu. Í greininni er tekið fram: „Nauðsynlegt er að armar hagstjórnar vinni að sama markmiði en þróun ríkisútgjalda og kostnaðarhækkanir í kjarasamningum hafa ekki verið til þess fallnar að viðhalda efnahagslegum stöðugleika í yfirstandandi efnahagsuppsveiflu.

Ytri þættir skipta ekki síður máli. Heimshagvöxtur er lítill og óvissa ríkir vegna Brexit, stöðu evrusvæðisins og afleiðinga forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Ferðamenn frá þessum svæðum eru stærstur hluti þeirra sem sækja okkur heim og nærri 90% tekna sjávarútvegs eru í dollar, pundi og evrum. Veik staða helstu viðskiptaþjóða okkar bitnar illa á útflutningsgreinum okkar.

Þrátt fyrir að vel ári um þessar mundir er afar brýnt að forðast yfirspennu í uppsveiflunni og þar gegna opinber fjármál lykilhlutverki. Endurskoða verður þá stefnu að Ísland verði áfram eitt mesta hávaxtaríki heims þegar verðbólguvæntingar eru við verðbólgumarkmiðið og Seðlabankinn og aðrir spáaðilar spá minni verðbólgu en 2,5% fram til ársloka 2018. Ef ekki er óhætt að lækka vexti nú, þá hvenær?“ kemur fram að lokum.