Norska skipafélagið Havila Shipping var rekið með 2,2 milljarða íslenskra króna tapi síðustu tvo ársfjórðunga, frá apríl og út september. Fyrirtækinu hefur því ekki tekist að snúa við rekstrinum eftir fjárhagslega endurskipulagningu í byrjun ársins. Þá afskrifuðu Arion banki og Íslandsbanki háar fjárhæðir af milljarða lánum til félagsins. Félögin fengu á móti kauprétti í Havila og þá varð Íslandsbanki hluthafi í fyrirtækinu.

Havila, sem hefur sérhæft sig í rekstri þjónustuskipa við olíuborpalla, hefur átt í miklum rekstrarvandræðum frá því að olíuverð tók dýfu árið 2014. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 11,2% í lok september. Arion banki lánaði félaginu 300 millj­ónir norskra króna sumarið 2014, sem þá voru jafnvirði 5,5 milljarða íslenskra króna. Íslandsbanki lánaði fyrirtækinu 130 milljónir norskra króna í árslok 2013, sem þá voru um 2,5 milljarðar íslenskra króna.