Fram kemur í fréttatilkynningu frá HB Granda að fyrirtækið hafi sl. föstudag skrifað undir samninga um smíði þriggja nýrra ísfisktogara. Samningarnir hljóða upp á 6,8 milljarða króna.

Nýju skipin munu leysa af hólmi þrjá togara félagsins sem nú eru í rekstri, þá Ásbjörn RE, Otto N. Þorláksson RE og Sturlaug H. Böðvarsson AK. Með nýju skipunum mun hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins aukast, skipin munu eyða minni olíu, aflameðferð og nýting verður betri og viðhaldskostnaður mun lækka, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni.

Það er skipasmíðastöðin Celiktrans Deniz Insaat Ltd. í Tyrklandi sem mun annast smíði togaranna, en stöðin er fyrir að smíða tvö uppsjávarskip fyrir HB Granda. Hönnun skipanna er í höndum Nautic ehf. í Reykjavík.